E-mail: info@aroundtheworld.is --- Tel:+354 564 2272

Vegabréfsáritanir til Kína

Allir þurfa að hafa vegabréf sem gildir í 6 mánuði fram yfir heimflugsdag.
Íslendingar þurfa vegabréfsáritun vilji þeir heimsækja Kína. Kínversk stjórnvöld hafa tilkynnt um herta framkvæmd á útgáfu vegabréfaáritana til Kína. Í ljósi þess bendir sendiráðið öllum sem hagsmuni eiga að gæta að leita sér öruggra upplýsinga. Minnt er á að sækja um áritanir með sem allra lengstum fyrirvara.

Kínverska sendiráðið í Reykjavík annast útgáfu vegabréfsáritana á Íslandi og á heimasíðu þeirra er hægt að nálgast ýmsar upplýsingar.

Sendiráð Kína í Reykjavík
Bríetartún 1
105 Reykjavik
Sími: 00354-527 6688
Fax: 00354-5626110
Netfang: chinaemb@simnet.is
Heimasíða: http://is.china-embassy.org/eng/

Opnunartímar: 09:00-11:30 (Mánudaga, miðvikudaga og föstudaga)
Frekari upplýsingar um reglugerð vegabréfsáritana er að finna á heimasíðu kínverskra stjórnvalda.

Koma þarf með mynd þegar sótt er um ferðamanna Visa og er hægt að sjá stærð hennar á þessari síðu http://is.china-embassy.org/eng/lsyw/t1420580.htm
Hong Kong SAR og Macao SAR
Íslendingar þurfa ekki vegabréfsáritun til að komast inn í Hong Kong SAR og Macaó SAR. Reglur um landvist á þessum tveimur sérstöku stjórnarsvæðum (Special Administrative Region) eru ekki tengdar reglum Alþýðulýðveldisins Kína.

Upplýsingar um möguleika á endurnýjun á vegabréfaáritun til Kína frá Hong Kong er að finna á heimasíðu „the Commisioners Office“ í Hong Kong.

Hér er að finna almennar upplýsingar um Kína sem gott er að hafa í huga þegar landið er heimsótt.

Kína
Alþýðulýðveldið Kína er um 9,6 millj. km2 að stærð og 3ja stærsta land í heimi. Áætlaður fólksfjöldi er um 1,3 milljarður. Höfuðborgin er Beijing (Peking) og er hún tíunda stærsta borg heims í sama sæti og New York með 7,3 milljónir íbúa.
Tímamismunur
Klukkan í Kína er 8 klst. á undan okkar tíma. Þegar klukkan er 12 að hádegi í Kína er klukkan 4 að nóttu á Íslandi. Í Kína er alls staðar sami tími.
Farangurinn

Látið innrita farangur alla leið til Kína við innritun á Keflavíkurflugvelli. Farþegar bera sjálfir ábyrgð á farangri sínum á áfangastað og að koma honum í rútur. Leyfilegur farangur í flugi er 20 kg farangur á mann, bæði í millilandaflugi og í innanlandsflugi í Kína. Ein taska er leyfð til að hafa í handfarangri  (20cm x 40cm x 55cm), hámarksþyngd er 5 kg auk – venjulegar handtösku.
Klæðnaður
Mikilvægast er að hafa léttan og þægilegan fatnað og góða skó (gönguskór eru ekki nauðsynlegir, en gott er að hafa í huga að töluvert er um létta göngu í ferðinni). Peysu og létta yfirhöfn/regnjakka og fatnað sem þornar fljótt. Hvergi er krafist spariklæðnaðar, aðeins snyrtilegs fatnaðar á hótelunum á kvöldin og á skipinu. Við mælum með að halda farangri í lágmarki og ekki síst vegna reglna um hámarks farangurs í flugi og í okkar ferð eru mörg flug. Svo er gaman að versla í Kína.
Samgöngur í Beijing
Staðið hefur verið í umtalsverðum umbótum á samgöngukerfinu undanfarin ár. Neðanjarðarlestarkerfið hefur verið stækkað umtalsvert og ferðir eru tíðar. Einnig er mikið er af leigubílum og þeir eru tiltölulega ódýrir en grunngjaldið er 10 RMB. Ekki tíðkast að gefa þjórfé og ekki borgar sig að reyna að semja um verðið fyrirfram. Best er að láta mælirinn gilda. Hér má finna lítinn leigubíla-leiðarvísir um Beijing en hann er hægt að nota til að komast á milli helstu staða. Bílstjórarnir geta flestir lesið kínverska letrið og farið á þann stað sem óskað er eftir. Ekki er leyfilegt fyrir erlenda ríkisborgara að aka bifreið í Beijing án þess að þeyta próf og fá útgefið sérstakt ökuskirteini.
Vatn
Ekki er ráðlagt að drekka kranavatn eða fá sér klaka með drykkjum í Kína. Þetta á við um allt land. Best er að sjóða allt vatn sem notað er eða drekka flöskuvatn.
Fæðið
Maturinn sem við fáum í ferðinni er í mjög góðu lagi!
Góður morgunmatur er í boði á hótelum.
Prjónar eru nánast alls staðar notaðir og yfirleitt er einnig hægt að fá skeiðar. Hnífar og gaflar eru til staðar á hótelum og veitingahúsum sem eru vön að taka á móti erlendum ferðamönnum, en ólíklegra er að finna slíkan búnað á almennum kínverskum veitinga-stöðum. Látið fararstjóra vita um hugsanleg óþol og/eða ofnæmi eða um einhver sérstök veikindi er að ræða.(Ath. Það er trúnaðarmál milli farþega og fararstjóra)
Gjaldmiðill
Kínverski gjaldmiðillinn er Renmibi (RMB), í daglegu tali nefnt Yuan eða „Kvai“. Alþjóðlega er kínverski gjaldmiðillinn nefndur Yuan (CYN). Hægt er að skoða gengi gjaldmiðla á eftirfarandi vefsvæði.
Greiðslukort
Greiðslukort verða æ algengari í Kína. Hægt er að greiða með greiðslukorti á alþjóðlegum hótelum, veitingastöðum og vestrænum verslunarkeðjum. Hraðbankar eru aðgengilegir í flestum stórborgum landsins. Hámark upphæða sem hægt er að taka út með greiðslukorti er ákveðið af þeim banka sem gefur kortið út á Íslandi.
Tungumál 
Starfsmenn í móttökum hótela tala oftast fína ensku.
Starfsmenn á veitingastöðum sem við förum á skilja grundvallarhugtök og orð á ensku
Innlendir leiðsögumenn eru almennt færir í ensku.
Lögregluþjónar hafa flestir grundvallarþekkingu á ensku.
Auk kínverskra tákna á skiltum er nú gjarnan einnig enskur texti
Ekki gera ráð fyrir að fólk úti á götu skilji annað en kínversku.
Símasamband
Frá Íslandi til Kína: 0086 landsnúmer svæðisnúmer 8 stafa símanúmer
Frá Kína til Íslands: 00354 og 7 stafa símanúmer
Rafmagnsinnstungur
Rafmagn er 220 volt og bjóða alþjóðleg hótel uppá innstungur fyrir vestrænar klær. Ef ferðast er í dreifbýli er mælt með að taka fjölnota innstungu með i för.
Læknar og lyf
Á flestum ferðamannastöðum í Kína er unnt að ná í vestræna lækna ef á þarf að halda. Þar sem úrval og aðgengi að vestrænum heilsu- og hreinlætisvörum er ekki alls staðar eins mikið og hér heima, ráðleggjum við farþegum að taka með sér næga skammta af nauðsynlegum lyfjum með sér. Einnig önnur lyf eins og maga- og verkjalyf sem viðkomandi þyrfti hugsanlega á að halda. Góð regla er að geyma lyf í handfarangri. Víða er salernis- og snyrtiaðstaða (sérstaklega á almenningssalernum) ekki á neinn hátt sambærileg við það sem við eigum að venjast og því ráðlagt að hafa bréfþurrkur með í för. Sumir hafa einnig haft með sér blautþurrkur og/eða sótthreinsandi gel meðferðis. Gangið úr skugga um að allar tryggingar séu í lagi fyrir brottför.
ÞJÓRFÉ
Það var ekki hefð fyrir þjórfé í Kína og var þjónustugjald yfirleitt innifalið í reikningum. Undanfarin ár hefur tíðkast  að gefa burðarmönnum, hótelstarfsfólki, leiðsögumönnum, bílstjórum og ýmsum öðrum aðilum þjórfé. Fararstjóri heldur oftast utan um þjórfé fyrir hópinn í ferðinni og rukkar það inn í lok hverrar dagsferðar. Áætlaðar eru u.þ.b. 3 – 5 RMB á dag per mann fyrir staðarleiðsögumann og 50% af því til bílstjóra en auk þess færir íslenskur fararstjóri staðbundum fararstjórum og rútubílstjórunum litlar, íslenskar gjafir frá hópnum. Á skipinu er áætlað 150 RMB á mann í þjónustufé.
Veðurfar
Veðurfar í Kína er mjög fjölbreytilegt milli árstíða og staðsetningar í landinu. Upplýsingar um hvernig veðrið er má nálgast hér.
Öryggi
Kína þykir almennt öruggt land, en sýnið sömu heilbrigðu skynsemi og í öðrum löndum. Forðist t.d. að vera með of mikið af peningum á ykkur, nema þá í peningabelti og forðist afskekkta staði seint á kvöldin.
Almennir frídagar í Kína
1. janúar – nýársdagur
1. maí – frídagur verkamanna
1. október – Þjóðhátíðardagur Kína

Kínverska nýárið fellur að jafnaði í febrúar á ári hverju en dagsetning er breytileg.

Vinsamlega lesið skilmála AroundTheWorld.is